Kubbur Snati

- því allir hundar heita Snati

Síða 1  ⊥  Síða 2  ⊥  Síða 3  ⊥  Síða 4

Kubbur Snati er svartur labrador. Hann fæddist í Grindavík 2. mars 2007 klukkan 02:10 að staðartíma. Foreldrar hans eru þau Skella og Karri. Kubbur er elstur í hópi 5 systkina og eini strákurinn. Að kvöldi fimmtudags, 10. maí, var hann sóttur til Grindavíkur af Hlífu, verðandi stóru systur, Magga mági og Báru frænku. Þá nótt gisti hann á Háaleitisbrautinni með tveimur köttum sem þar búa.

Föstudaginn 11. maí fór hann í pössun til Ísaks á stúdentagarðana, þar sem bannað er að halda gæludýr, en Kubbur var náttúrulega ekki gæludýr heldur fjölskyldumeðlimur. Um kvöldmatarleytið fékk hann far norður í Skagafjörðinn með Signýju frænku og Sjonna. Stuttu fyrir miðnætti tóku nýju foreldrarnir á móti honum fyrir utan Freyjugötu 26. Kubbur sýndi þeim strax ástúð og lét eins og hann hefði þekkt þau frá fæðingu. Þessa nótt svaf hann uppí.

Síðan þá hefur Kubbur farið tvær ferðir til Reykjavíkur og er orðinn ansi sjóaður ferðahundur. Alls staðar sem hann kemur er hann hrókur alls fagnaðar og elskaður í hvívetna. Hann er hlýðinn og ljúfur og ákaflega fljótur að læra og tileinka sér nýja hluti.

Á aðalfundi hundanafnanefndar Borgargerðis, var ákveðið að forveri Kubbs, Kolbeinn Snati, yrði sá síðasti sem bæri það nafn, en hann var þriðji Kollinn í fjölskyldunni. Kubbur var því nefndur í höfuðið á bangsanum hans Ísaks, enda kemur þeim vel saman. Sem kunnugt er, sagði Hlíf á sínum yngri árum að allir hundar hétu Snati, og því heitir Kubbur það líka.

Hér að neðan og á næstu síðum má sjá nokkrar myndir af Kubbnum, sem segja sögu hans að hluta frá því hann kom til nýju fjölskyldunnar. Þegar smellt er á myndirnar opnast þær stærri í nýjum glugga.


Nagandi

Það er fátt betra til að halda manni í góðu skapi á nýju heimili, en þurrkað svínseyra.

10. maí 2007

Angurvær

En samt getur maður orðið dálítið angurvær á svipinn.

10. maí 2007


Faðmlag

Kubburinn fékk faðmlag frá Magga mági að skilnaði.

11. maí 2007

Tveir

Þegar svefninn sigrar mann getur komið sér vel að hafa nafna sinn til að hvíla kollinn á.

11. maí 2007


Duglegur

Kubbur áttaði sig strax á að heimilisstörfin ganga best ef allir hjálpast að.

13. maí 2007

Duglegri

Og ekki dugar að taka bara úr þvottavélinni... það þarf líka að taka til í þvottahúsinu. Hentugast er að gera það meðan mamma er í vinnunni.

16. maí 2007


Kattamatur

Kubbur var ekki jafn viss og Hlíf stóra systir um að kattamatur væri bara ætlaður köttum.

19. maí 2007

Afslöppun

Það er þó alltaf gott að gefa sér tíma til að slappa örlítið af með fjölskyldunni.

19. maí 2007


Samstaða svartra

Kubbur reyndi að stofna hagsmunasamtök svartra gæludýra...

20. maí 2007

...tókst ekki

...en Grana leist ekkert alltof vel á slíkt samstarf!

20. maí 2007

Ísak Sigurjón, 2007